Franskir dagar á Fáskrúðsfirði (27.-29. júlí 2018) [fr]

Sendiherrann fór austur á firði í tilefni af Frönskum dögum sem haldnir eru árlega á Fáskrúðsfirði, þar sem Frakkar reistu árið 1904 annan spítalann af þremur á Íslandi.
JPEG

Á Austfjörðum komst sendiherrann að raun um hve minningin um frönsku sjómennina er enn lifandi þar og mikil rækt við hana lögð og hve vinabæjartengsl Fáskrúðsfjarðar og Gravelines eru sterk. Það er frá þessari borg í Norður-Frakklandi sem fjöldi Íslandssjómanna lagði úr höfn á hverju ári. Og eins og ævinlega tóku fulltrúar Gravelines þátt í þessum frönsku dögum, en það voru borgarstjórnarmennirnir Aurore Devos og Lise Blanckaert. Í lok september verður svo hátíð Íslandssjómannanna í Gravelines.

Frönsku dagarnir voru settir að kvöldi 27. júlí við varðeld, hljóðfæraleik og flugeldasýningu að viðstöddum hundruðum áhorfenda sem komu með fjölskyldum sínum úr nágrannasveitunum. Sendiherrann og fulltrúar Gravelines hittu að máli frammámenn í sveitarfélaginu Fjarðarbyggð, þau sátu alkirkjulega guðsþjónustu í frönsku kapellunni sem hefur verið gerð upp, lögðu blómsveig að krossinum í kirkjugarðinum þar sem hvíla 49 franskir sjómenn og tóku auk þess þátt í ýmiss konar menningarviðburðum og athöfnum á dagskrá þessara frönsku daga, þar á meðal í keppni í pétanque, sem var afskaplega vel tekið.

Franski spítalinn var gerður upp af sérstökum myndarbrag og er þar nú rekið hótel. Í tengslum við það var sett á fót safn um þorskveiðarnar við Ísland sem sýnir vel stritið og vosbúðina hjá frönsku sjómönnunum og samskipti þeirra við Íslendinga. Þetta merkilega framtak til minningar um liðinn tíma sýnir mikilvægan kafla í sögu samskipta Frakka og Íslendinga og ef þið eigið leið um þessar slóðir megið þið alls ekki missa af því.

Síðasta uppfærsla þann 15/10/2018

Efst á síðu