Franski þjóðhátíðardagurinn í Reykjavík [fr]

Þjóðhátíð Frakka var haldin hátíðleg 14. júlí í Reykjavík líkt og út um allan heim.

Hátíðin var að þessu sinni haldin í Bryggjunni Brugghúsi því þaðan var ekki nema örskot að gólettunni og skólaskipinu „Étoile“ sem lá í gömlu höfninni.

Fleiri en 320 gestir komu í móttökuna, bæði franskir og íslenskir, auk áhafnarinnar af „Étoile“ og það ríkti gleði og góður andi meðal gestanna. Fingramaturinn, sem fram var borinn, mæltist vel fyrir, og ekki síður góðgæti sem sælkeraverslunin Hyalin bauð upp á, eða marokkósku pönnukökurnar frá Kasbah Café, eða vatnsdeigsbátarnir og aðrir eftirréttir sem matsveinninn á „Étoile“ töfraði fram. Gestir gátu skoðað nýjustu bílgerðirnar frá Renault, Peugeot og Citroën sem stóðu fyrir utan, horft á myndbönd frá Airbus og Ponant skipafélaginu, rætt við fulltrúa Reykjavík accueil og Climathon, sem voru með bása á staðnum, og fengið sýnishorn af snyrtivörum frá L’Occitane. Einnig voru í boði skoðunarferðir um gólettuna „Étoile“, en hún er merkileg eftirgerð gólettanna frá Paimpol sem sigldu á þorskveiðar við Ísland allt fram undir árið 1930.

Á samkomunni var líka tombóla og rann ágóðinn af sölu miðanna til Landsbjargar. Fyrstu verðlaun voru treyja landsliðs Frakka, árituð af liðsmönnum landsliðsins, sem er ríkjandi heimsmeistarar og var það Knattspyrnusamband Frakklands sem gaf treyjuna og Knattspyrnusamband Íslands gaf tvo miða á leik Frakka og Íslendinga í undankeppni Evrópumeistaramótsins, en hann fer fram í Reykjavík 11. október.

Í upphafi samkomunnar bauð sendiherrann gesti velkomna og þakkaði styrktaraðilum stuðninginn en því næst lýsti skipherrann á „Étoile“ skútunni og sjóferðunum sem hún hefði farið. Þá tók fulltrúi Landsbjargar til máls og að lokum sungu viðstaddir þjóðsöngva beggja landa.

Lokahnykkur á samkomunni voru jasstónleikar. Með þeim endaði samveran þessa fallegu kvöldstund 14. júlí 2019 þar sem vinátta Frakka og Íslendinga sveif yfir vötnunum.

Síðasta uppfærsla þann 30/09/2019

Efst á síðu