Franska kvikmyndahátíðin haldin í 20 sinn í janúar 2020 [fr]

PNG
Alliance Française og franska sendiráðið á Íslandi í samstarfi við Bíó Paradís, halda Frönsku kvikmyndahátíðina í 20. skipti í janúar næstkomandi svo um sannkallaða afmælishátíð verður að ræða!

Ellefu myndir verða sýndar frá 24. janúar til 2. febrúar, þar á meðal mynd sem hefur slegið í gegn hjá áhorfendum, „Fagra veröld“ (La Belle Époque) eftir Nicolas Bedos.

Aðrar myndir eru „Mynd af ungri brennandi stúlku“ eftir Céline Sciamma, ástarsaga tveggja kvenna á 18. öld. Hún hlaut hinsegin verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes og verðlaun fyrir besta handrit ásamt því að vera talin ein áhugaverðasta kvikmynd ársins að mati gagnrýnenda og áhorfenda.

Einnig verður á dagskrá seinasta mynd Romans Polanskis, um Dreyfusmálið, „Ég ákæri“.

„Dilili í París“ er teiknimynd fyrir börn og meira en það, hún er fyrir alla fjölskylduna. Höfundur er Michel Ocelot og verður myndin sýnd með íslenskum texta.

Þá er boðið upp á seinustu rómantísku kómedíuna hans Cédrics Klapischs, „Tvö sjálf“, og seinustu mynd Quentins Dupieux, sem er mjög frumleg og kallast „Rúskinnið“.

Eins og undanfarin ár mun hátíðin í samstarfi við kanadíska sendiráðið á Íslandi sýna kvikmynd sem í þetta sinn er nýjasta kvikmynd hins unga stórleikstjóra Xavier Dolan,„Matthías og Maxime“. Kvikmyndin er lokamynd hátíðarinnar.

Á dagskrá eru ýmsir viðburðir og sérsýningar. Á 20 ára afmæliskvöldinu verður sýnd mynd sem vann áhorfendakosningu Bíó Paradís á samfélagsmiðlum: „Amélie“ eftir Jean-Pierre Jeunet. Fólki gefst kostur á að sjá hana bæði með íslenskum texta og enskum texta.

Eitt kvöldið er helgað heimildamynd um náttúruvín, „Guðaveigar“. Eftir sýninguna verður boðið upp á vínsmökkun með Dóra DNA við stjórnvölinn!

Klassíska kvöldið er lagt undir glæpamyndir og þar verða á boðstólum tvö meistaraverk Henris Clouzots: „Morðinginn býr í númer 21“ og „Forynjurnar“ (Les Diaboliques). Kynnir á kvöldinu verður rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir.

Loks verða Sólveigar Anspach verðlaunin fyrir stuttmyndir afhent í fjórða skipti. Formaður dómnefndar, Sjón, stýrir athöfninni þegar höfundar bestu stuttmyndar á íslensku og bestu stuttmyndar á frönsku verða heiðraðir.

Nánari upplýsingar um allar myndirnar á dagskrá verða á síðu https://bioparadis.is/vidburdir/franska-kvikmyndahatidin-2020/
Facebook viðburður hátíðarinnar

Síðasta uppfærsla þann 20/12/2019

Efst á síðu