Franska kvikmyndahátíðin 2019

Dagana 6. – 17. febrúar 2019 var Franska kvikmyndahátíðin haldin í nítjánda skipti. Hún teygði sig bæði til Ísafjarðar í byrjun mars og í fyrsta skipti til Egilsstaða, 21. og 22. febrúar.

Sjö kvikmyndir voru sýndar í Háskólabíói : „Að synda eða sökkva“ var opnunarmyndin, „Lýðurinn og konungur hans“, „Með forsjá fer“, „Kvölin“, „Barbara“, „Lovísa missir af lestinni“ og kvikmynd í boði kanadíska sendiráðsins, „Falla bandaríska heimsveldisins“.

Eitt kvöldið var helgað klassíkinni, með tveimur stórverkum franskrar kvikmyndagerðar á sömu sýningu, báðar helgaðar óstýrilátri æsku : „Núll fyrir hegðun“ og „400 högg“.

Þá voru í fyrsta skipti sýndar þrjár myndir án aðgangseyris í Veröld, í samstarfi við frönskudeild Háskóla Íslands : „Kennedysyllan“, „Swagger“ og „Strákarnir að austan“. Allar fjölluðu þær um æskufólk sem var eitt af gegnumgangandi þemum hátíðarinnar.

Áhorfendum féll sérstaklega vel í geð gamanmyndin „Að synda eða sökkva“ en myndin „Kvölin“ eftir skáldsögu Marguerite Duras spurðist líka ákaflega vel út. Mmenningarþátturinn „Lestin“ í Ríkisútvarpinu gerði myndina og höfund sögunnar að aðalefni einnar útsendingar. Gagnrýnendur mátu hæst myndina „Með forsjá fer“ og gáfu henni 4,5 stjörnur í Morgunblaðinu. Fáeinum dögum eftir að hátíðinni lauk hreppti þessi mynd einmitt ýmis verðlaun á Césarhátíðinni, þar á meðal sem besta mynd, fyrir besta kvikmyndahandrit og fyrir besta leik leikkonu.

Þessi kvikmyndahátíð, sem Alliance Française í Reykjavík skipulagði ásamt franska sendiráðinu, gekk afar vel og við þökkum samstarfsaðilum okkar, Háskólabíói, Myndformi, Ísafjarðarbíói, Sláturhúsinu – Menningarmiðstöð á Egilsstöðum, Sendiráði Kanada á Íslandi og frönskudeildinni í Háskóla Íslands sem þýddi textana við barnamyndina í ár, „Lovísa missir af lestinni“ eins og á síðasta ári líka. Við færum líka frönsku konsúlunum á Egilsstöðum og á Ísafirði þakkir okkar. Ef ekki hefði verið fyrir þeirra atbeina hefðum við ekki getað farið með myndirnar út fyrir Reykjavík.

Við sjáum ykkur aftur á næsta ári, á 20. frönsku kvikmyndahátíðinni !

Dernière modification : 17/04/2019

Haut de page