Franska kvikmyndahátíðin 2018: Tíu myndir á tíu dögum! [fr]

Franska kvikmyndahátíðin var haldin í 18. skipti frá 26. janúar til 4. febrúar.

Afleggjarar af hátíðinni rötuðu líka til Akureyrar, frá 27. til 31. janúar, og til Ísafjarðar í fyrsta skipti, frá 16. til 18. febrúar.

Tíu myndir voru sýndar á hátíðinni: Opnunarmyndin var „Svona er lífið“, „Happy End“, „Lífs eða liðinn“, „Viktoría“, „Hvítu riddararnir“, „Myrkviði“, „Endurfæðingin“, „Polina“ og „Iqualuit“ (kanadísk mynd sem sendiráð Kanada á Íslandi lagði fram).

Á hátíðinni var líka sýnd auglýsingamynd um frönsku, „Un pour tous, allir fyrir einn“ sem Kvikmyndaskóli Íslands framleiddi. Franska sendiráðið og Alliance Française í Reykjavík þakka öllum þeim sem tóku þátt í gerð hennar, frönskufólki og áhugafólki um frönsku, sem sagði svo góðfúslega frá því hvernig málið kæmi þeim fyrir sjónir, og ennfremur öllum stúdentunum og kennurunum sem lögðu hönd á plóg.

Kvikmyndahátíðin heppnaðist sérlega vel. Bæði fengu myndirnar afar góða dóma gagnrýnenda og eins var samstarfið við Háskólabíó, Borgarbíó, Ísafjarðarbíó, Alliance Française og frönskudeildina í Háskóla Íslands afskaplega farsælt. Þá verður að geta sérstaklega um þátt kanadíska sendiráðsins sem stóð fyrir komu Natars Ungalaaqs, hins kröftuga leikara í „Iqaluit“ og heiðurskonsúla Frakklands á Akureyri og Ísafirði. Ekki hefði verið hægt að fara með hátíðin út fyrir Reykjavík án þeirra atbeina.

Áhorfendum fjölgaði verulega frá því í fyrra og má aðallega þakka það því nýmæli að efnt var til viðburða í tengslum við nokkrar myndanna þá tíu daga sem hátíðin stóð. Við þökkum sérstaklega þeim Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur fjölmiðlakonu, Kjartani Birgissyni líffæraþega, Runólfi Pálssyni lækni, Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmanni, Steinunni Rósu Einarsdóttur móður líffæragjafa, Vilhjálmi Árnasyni heimspekingi og ennfremur Ernu Ómarsdóttur og Aðalheiði Halldórsdóttur og Íslenska dansflokknum. Þau stóðu fyrir einlægum og tilfinningaþrungnum umræðum og skoðanaskiptum um myndirnar, um jafnólík efni og líffæragjafir og dans.

Að lokum fór fram afhending verðlauna fyrir stuttmyndakeppni Sólveigar Anspach, sem ætluð er íslenskum eða frönskumælandi kvenleikstjórum. Við þetta tækifæri voru sýndar þrjár myndir sem valdar voru úr innsendum stuttmyndum og heimildamyndin „Hún heitir Alice Guy“ eftir Emmanuelle Gaume, sem kom til landsins af þessu tilefni. Þriðju verðlaun í stuttmyndakeppninni hlaut Gabrielle Demers fyrir myndina „Paupière mauve“ (Kanada), önnur verðlaun hlaut Stéphanie Cadoret fyrir „Mon homme (poulpe)“ (Frakkland) og fyrstu verðlaun féllu í skaut Yasmine Benabderrahmane fyrir „La Renardière“ (Frakkland). Öllum þátttakendunum þökkum við fyrir framlög sín, óskum verðlaunahöfum til hamingju og færum þakkir þeim sem áttu aðild að verðlaununum, Reykjavíkurborg, Háskólabíói, Kvikmyndamiðstöð Íslands, ZikZak og Agat films Ex-nihilo.

Þessi hátíð lifir lengi í minningunni og við bíðum með óþreyju eftir þeirri næstu.

Síðasta uppfærsla þann 14/07/2018

Efst á síðu