Margrét Hjartardóttir og Eyjólfur Már Sigurðsson sæmd menntaorðunni [fr]

Graham Paul, sendiherra Frakklands, sæmdi þau Margréti Helgu Hjartardóttur og Eyjólf Má Sigurðsson tákni frönsku menntaorðunnar við athöfn í bústað sínum föstudaginn 5. júní. Ávarpið, sem hann flutti við þetta tækifæri, ásamt myndum er hér fyrir neðan.

Kæra Margrét, kæri Eyjólfur, kæru vinir,
Það er mér og eiginkonu minni sérstök ánægja og sómi að taka á móti ykkur í bústað sendiherra Frakklands til að heiðra ykkur með orðunni „Chevalier de l’Ordre des Palmes Académiques“. Ég býð hingað velkomna fjölskyldu ykkar, vini og kunningja.

Leyfið mér fyrst að hafa orð á því hve það er mér mikil ánægja að við getum loksins komið saman til þessarar athafnar til að heiðra ykkur, eftir hinn undarlega tíma sem við höfum lifað. Orðurnar ætluðum við að afhenda í mars en urðum að fresta því vegna ástandsins. Svo er skilvirkum heilbrigðisyfirvöldum á Íslandi fyrir að þakka að við getum um síðir fagnað öll saman þessari viðurkenningu sem er svo ríkulega verðskulduð. Ég vil nú fyrst fara fáeinum orðum um feril ykkar, og eins og kurteisin býður byrja ég á þér, kæra Margrét.

Þú laukst prófi í frönsku við Háskóla Íslands og hélst svo áfram námi í háskólanum í Strassborg og tókst þar meistaragráðu í miðaldafræðum. Heim komin til Íslands ákvaðstu að kenna frönsku. Kennslustarfið er köllun frekar en vinna og þar sýndirðu hæfni þína í að kenna málið og ná með því til yngri kynslóðarinnar, bæði í Kvennaskólanum og í stundakennslu í Háskóla Íslands.
Þú hefur látið til þín taka innan Félags frönskukennara á Íslandi og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum og situr sem formaður frá 2016. Í störfum þínum þar hefurðu blásið ferskum og nútímalegum anda í ímynd frönskunnar, ekki síst með því að skipuleggja á hverju ári myndbandakeppni fyrir frönskunemendur á framhaldsskólastigi.

Leyfðu mér líka að vekja sérstaka athygli á nýlegu framtaki þínu, í samstarfi við Alliance Française og menningardeild sendiráðsins, sem snýr að vottun frönskukunnáttu. Samkomulag Félags frönskukennara á Íslandi, sendiráðs Frakklands og Alliance Française um DELF var þannig undirritað 28. febrúar 2020. Þar er um að ræða nýmæli til að auka veg frönskunnar á Íslandi. Vottun eins og DELF staðfestir frönskufærni hvar sem er í heiminum og stuðlar að því að tunga Molières verði dýrmætt vegarnesti hverjum sem hyggur dvöl eða frama erlendis.

Kæra Margrét, í meira en tuttugu ár hefurðu lagt þig í líma, verið hollráð og hugmyndarík í að glæða og verja kennslu þessarar tungu sem sögð er erfið en þú hefur kunnað að draga fram nytsemi hennar og erindi við samtímann. Ég vil líka bæta því við, á persónulegri nótum, hve það er auðvelt að vinna með fólki eins og þér, opnu, brosmildu og atorkusömu. Starfsfólk sendiráðsins, og ég tel mig líka tala fyrir Alliance Française, er lánsamt að eiga þig að og fagnar því að tjá þér í dag þakklæti sitt.

Margrét Helga Hjartardóttir, fyrir markvert framlag þitt í þágu tungu okkar og kennslu hennar á Íslandi og fyrir hönd ráðherra mennta- og æsklýðsmála Frakklands, sæmi ég þig riddaranafnbót menntaorðunnar.

Og þá er komið að þér, kæri Eyjólfur.

Eftir framhaldsskólanám á Íslandi lá leiðin í frönskunám til Frakklands, fyrst við háskólann í Clermont-Ferrand og síðan við Paul-Valéry - Montpellier III háskólann. Þú komst aftur til Íslands og laukst BA-gráðu í frönsku frá Háskóla Íslands 1993 og snerir að því loknu til baka til Frakklands og laukst meistaragráðu í frönsku sem erlendu tungumáli við Parísarháskóla VII – Denis Diderot og eftir það DEA prófi í kennslufræði tungumála og menningarfræða frá Parísarháskóla III – Sorbonne Nouvelle árið 1996.

Eftir heimkomuna til Íslands vannstu í tvö ár í viðskiptadeild franska sendiráðsins (sem illu heilli var lögð niður...) áður en þú varðst kennari við Háskóla Íslands árið 1997 og þar sem þú starfar enn.

Árið 1998 tókstu við Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Í þessum veigamiklu störfum hefurðu af atfylgi og staðfestu haldið því á loft hve fjölbreytni tungumála skiptir miklu og hve miklu varðar að læra erlend mál. Meðal þess sem Tungumálamiðstöðin hefur hrint í framkvæmd vil ég nefna undirritun samkomulags um DELF og DALF, sem er vottun á frönsku sem erlendu tungumáli og staðfestir færni í frönsku.

Með hæfileikum þínum í tónlist hefurðu einnig stuðlað að því að auka veg frönsku á Íslandi, einkum í hljómsveitinni „Belleville“ og nú síðast „Gérard et les Métèques“. Tónleikar með þeim eru orðnir ómissandi í frönsk-íslensku menningarlífi. Ég vil ekki ofbjóða viðkvæmum sálum og læt því vera að raula vísur frá síðustu tónleikunum þínum þar sem blautlegum frönskum kveðskap voru gerð skil!

Í rúmlega tuttugu ár hefur sendiráð Frakklands og Alliance Française notið þeirrar gæfu að eiga þig að, stuðning þinn og ósérhlífni, ekki einungis við að halda uppi merkjum frönskukennslu heldur líka við að koma að og skipuleggja viðburði sem höfða til franska samfélagsins á Íslandi og áhugafólks um frönsku.

Eyjólfur Már Sigurðsson, fyrir framlag þitt jafnt í leik sem starfi í þágu tungu okkar og franskrar menningar á Íslandi og fyrir hönd ráðherra mennta- og æskulýðsmála Frakklands, sæmi ég þig riddaranafnbót menntaorðunnar.

Síðasta uppfærsla þann 15/09/2020

Efst á síðu