Afhending fyrstu verðlauna í ljósmyndaleiknum Mitt framlag [fr]

Fyrstu verðlaun í ljósmyndaleiknum Mitt framlag komu í hlut Sigurpáls Ingibergssonar og voru afhent honum föstudaginn 4. september síðastliðinn. Alls bárust 154 ljósmyndir.

JPEG - 204.6 ko
Frá vinstri: Tarvo Kungla, fyrsti sendiráðsritari hjá sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, Sigurpáll Ingibergsson, sigurvegari í leiknum, og Philippe O’Quin, sendiherra Frakka á Íslandi.

Tilgangurinn var að vekja almenning til vitundar um lofslagsbreytingar. Engin skilyrði voru um val á myndefni að öðru leyti en því að myndirnar skyldu minna með einum eða öðrum hætti á loftslagsbreytingar. Myndir voru settar á netið á Instagram, Twitter og Facebook.

Evrópustofa, Umhverfisstofnun, Náttúruverndarsamtök Íslands, Reykjavíkurborg, Franska sendiráðið, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu og Kapall stóðu að ljósmyndaleiknum. Dómnefnd, skipuð fulltrúum þessara stofnana, komst að þeirri niðurstöðu að samsett mynd Sigurpáls af Hólárjökli (www.kistill.eu/mittframlag.jpg), sem tekin var 2006 og 2015, sýndi vel fram á áhrif umhverfisbreytinga á Íslandi.

Vísindamenn telja að 80 jöklar á Íslandi muni hverfa fyrir lok þessarar aldar. Því er spáð að Langjökull, næststærsti jökull landsins, hverfi innan hálfrar aldar.

Sigurvegarinn í vali dómnefndar hlaut ferð fyrir tvo til Parísar á meðan á COP21, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, stendur frá 30. nóvember til 11. desember næstkomandi. Um 40.000 gestir eru væntanlegir á ráðstefnuna sem hefur að meginmarkmiði, að ná samkomulagi meðal allra þjóða um það, hvernig þjóðfélögin og hagkerfin eigi að fara sem sparlegast með kolefniseldsneyti og hvernig þau geti sem best tekist á við loftslagsbreytingar.
Premier prix du concours de photos Mitt framlag / Ma contribution. - JPEG

Ljósmynd Helga Jóhanns Haukssonar af kríu (www.kistill.eu/krian.jpg) varð hlutskörpust í kosningu almennings á Facebook. Myndin beindi sjónum að því að minna æti væri að finna fyrir kríur við suður- og vesturströnd Íslands, ef til vill sökum loftslagsbreytinga, en slíkt gæti haft áhrif á varplönd. Helgi hlaut í verðlaun Author reiðhjól í boði Húsasmiðjunar.
JPEG

Myndirnar, sem tóku þátt í keppninni, er að finna á www.mittframlag.is og á www.cop21.gouv.fr. er að finna upplýsingar um loftslagsmál og loftslagsráðstefnuna í París.

Síðasta uppfærsla þann 14/09/2015

Efst á síðu