Áttugasta ártíð Pourquoi-Pas? slyssins [fr]

JPEG
Minnst verður með margvíslegum hætti þessa viku að 16. september næstkomandi verða 80 ár liðin frá því að Pourquoi-Pas? fórst með allri áhöfn, að einum undanskildum, við Mýrar í Borgarfirði.

Fimmtudagur 15. september
Kl. 10:00 Athöfn við minnismerkið um skipverja Pourquoi-Pas? í Straumfirði á Mýrum, þar sem lík þeirra og brak úr skipinu rak á land. Þátttakendur verða meðal annars afkomendur Charcots, fulltrúar franska sendiráðsins og Vinafélags Charcots og Pourquoi-Pas?, tíu skipverjar af nýja franska rannsóknaskipinu Pourquoi pas? og fulltrúar Björgunarfélags Akraness, en menn frá því félagi komu á vettvang slyssins og hjálpuðu til við að draga líkin á land.

Flutt verða stutt ávörp við minnisvarðann og lagðir blómsveigir að honum. Síðan verður gengið niður í fjöru þar sem frú Vallin-Charcot, barnabarn Charcots, segir fáein orð og að því loknu verður 40 rósum varpað í hafið.

Föstudagur 16. september

10:00 Minningarmessa í Landakotskirkju. Prestur er séra Jakob Rolland. Afkomendur Charcots, þar á meðal frú Vallin-Charcot, segja nokkur orð og lesa nöfn þeirra sem fórust. Messan er opin öllum meðan húsrúm leyfir.

11:00 Athöfn í Fossvogskirkjugarði, þar sem grafnir eru fáeinir skipverjar sem fundust ekki fyrr en nokkuð var liðið frá slysinu. Öllum er heimilt að taka þátt í athöfninni.

12:00 Fyrirlestur í Sjóminjasafninu í Reykjavik. Illugi Jökulsson talar um Charcot og síðustu siglingu Pourquoi-Pas? Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Íslandspóstur gefur í hádeginu út frímerki um borð í franska rannsóknaskipinu Pourquoi pas? sem liggur í Reykjavíkurhöfn, í tilefni af 80 ára afmæli Pourquoi-Pas? slyssins, sjá prófílmyndina hér á þessari Facebooksíðu. Síðar verður auglýst hvar og hvernig áhugasamir geta nálgast frímerkið og fyrstadagsumslög.

15:30 Athöfn í Charcot-safninu í Fræðasetrinu í Sandgerði þar sem frú Vallin-Charcot, dótturdóttir Charcots leiðangursstjóra, mun m.a. afhenda muni sem tengjast Charcot og heimskautaleiðöngrum hans á fyrri hluta síðustu aldar. Allir velkomnir.

Laugardagur 17. september
14:00 Málþing í Hátíðarsal Háskóla Íslands um Jean-Baptiste Charcot, heimskautarannsóknir hans og gildi þeirra í samtímanum.

Málshefjendur eru Jean-Louis Étienne, heimsþekktur læknir, vísindamaður og heimskautakönnuður, Anne-Marie Vallin-Charcot, barnabarn Charcots leiðangursstjóra, Stéphane Dugast, blaðamaður og höfundur bókar um Charcot sem kemur út á næstunni, Friðrik Rafnsson, þýðandi og verkefnisstjóri og Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði og einn hvatamanna að stofnun Charcot-setursins í Sandgerði. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Síðasta uppfærsla þann 17/10/2016

Efst á síðu