56 ára afmæli undirritunar Élyséesáttmálans [fr]

Forseti Frakklands og kanslari Þýskalands undirrituðu í Aachen 22. janúar 2019 nýjan sáttmála um samvinnu og samhæfingu landanna.

Frönsk og þýsk stjórnvöld ákváðu að stíga nýtt skref í framvindu tvíhliða samskipta sinna þegar nákvæmlega 56 ár voru liðin frá að þeir Charles de Gaulle Frakklandsforseti og Konrad Adenauer, kanslari Þýskalands, undirrituðu Élyséesáttmálann. Sáttmálinn 1963 var aðallega gerður til að helga sættir þjóðanna en tilgangur sáttmálans 2019 er að fella saman margs kyns fyrirkomulag, greiningar og afstöðu þjóðanna með tilvísun til Evrópusamrunans.

Samband Frakklands og Þýskalands grundvallast á sameiginlegum gildum og sáttmálinn undirbýr jarðveginn fyrir samvinnuverkefni á ýmsum sviðum, allt frá varnarmálum og tölvumálum til nýrra aðgerða í samfélagsmálum og leiða til að tengja betur þegna landanna, sérstaklega þá sem búa við landamærin.

Í heimi þar sem óvissan er mikil og álitamálin fjölmörg er Aachensáttmálinn hugsaður sem áttaviti og vegvísir fyrir samvinnu Frakka og Þjóðverja sem hefur verið hreyfiafl í uppbyggingu Evrópu.

Sendiráð Frakklands og Þýskalands minntust 56 ára afmælis Élyséesáttmálans og fögnuðu undirritun Aachensáttmálans á fundi með íslensku fjölmiðlafólki 22. janúar 2019 og á samkomu með ungum frönskum og þýskum stúdentum sem stunda nám í Reykjavík á vegum Erasmus+ áætlunarinnar.

Samband Frakka og Þjóðverja er einstakt fyrir það hve víðtækt það er og metnaðarfullt. Það er þungamiðjan í Evrópusmíðinni og hefur aldrei horft jafnfast til framtíðar.

Síðasta uppfærsla þann 08/04/2021

Efst á síðu