Þátttaka Ségolène Royal, sendiherra heimskautasvæðanna, í Arctic Circle [fr]

Ségolène Royal, fyrrverandi ráðherra og núverandi sendiherra heimskautssvæðanna, kom í fimmtu Íslandsheimsókn sína til að sækja ráðstefnuna Arctic Circle.

Þessi alþjóðavettvangur, sem er nokkurs konar Davosfundur norðurslóða, stóð 10.-12. október í Reykjavík. Þátttakendur voru rúmlega 2.000 að tölu frá einum 50 löndum.

Þann 9. október setti Royal, ásamt forsætisráðherra Grænlands, Kim Kielsen, listsýningu í Alliance Française sem nefndist „Smælki frá Grænlandi“. Þar kynnti listakonan Bénédicte Klène listmuni sem hún hafði unnið að um nokkurra vikna skeið þegar hún dvaldist um borð í báti sem sat fastur í ís við vesturströnd Grænlands.

Í kjölfarið á listsýningunni sat Royal kvöldverð með Ane Lone Bager, mennta-, menningar- og utanríkisráðherra Grænlands.

Næsta dag var hún í löngu viðtali við Egil Helgason í RÚV sem var sjónvarpað í Silfrinu 13. október.

Sendiherra heimskautasvæðanna átti síðan fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands og forseta Arctic Circle, áður en allsherjarfundur Arctic Circle hófst. Einnig átti hún stutta fundi með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, forsætisráðherra og utanríkisráðherra Finnlands og utanríkisráðherra Danmerkur.

Í ræðu sinni rakti Royal merkilegar rannsóknir Frakka á heimskautasvæðunum og aðkomu þeirra að fjöldamörgum samvinnuverkefnum og fjallaði síðan um helstu niðurstöður Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem snerta haf og freðhvolf. Hún fór yfir það hvernig hlýnun loftslags orkar á norðurslóðir og þær aftur á alla jörð og lauk máli sínu með því að skora á alþjóðasamfélagið að sýna kjark og samhug og bregðast við þessu knýjandi úrlausnarefni.

Royal hrósaði einnig Íslendingum fyrir að hafa gert sjálfbæra þróun að leiðarstefi meðan þeir gegna forystu í Norðurskautsráði.

Síðasta uppfærsla þann 20/12/2019

Efst á síðu