Þátttaka Frakka í jarðhitaráðstefnu í Reykjavík [fr]

Íslenski jarðhitaklasinn heldur alþjóðlega jarðhitaráðstefnu á tveggja ára fresti og fór hún fram að þessu sinni 24.-27. apríl 2018.
JPEG

Þetta er fjórða jarðhitaráðstefnan og sátu hana málsmetandi stjórnmálamenn, fjárfestar, vísindamenn og verktakar á þessu sviði og skiptust á skoðunum um hagkvæmustu aðferðir, verktækni og framfarir í jarðhitaverkefnum.

Jarðhiti er í þriðja sæti endurnýjanlegra orkugjafa í Frakklandi og tveir þátttakendur þaðan fjölluðu um reynsluna þar. Françoise Bey, varaformaður Strassborgarsvæðisins, tók þátt í pallborðsumræðum um hvernig íbúar í nágrenni við borun eftir jarðhita tækju slíkum framkvæmdum. Hún sýndi í þessu sambandi verkferla sem Strassborgarsvæðið hefur tekið saman til að gefa íbúum aðkomu að undirbúningi djúpborana eftir jarðhita. Erwan Bourdon, yfirmaður alþjóðasviðs jarðhitafyrirtækisins CFC, sagði frá jarðhitaveitu sem starfrækt er á Parísarsvæðinu.

Í ráðstefnulok tilkynnti íslenski jarðhitaklasinn að næsta heimsráðstefna um jarðhitamál yrði haldin í Reykjavík í apríl 2020. IGA, Alþjóðlegu jarðhitasamtökin, standa fyrir ráðstefnunni á fimm ára fresti. Þetta er stærsti viðburður í jarðhitaheiminum og má gera ráð fyrir næstum 3.500 þátttakendum á ráðstefnunni.

Síðasta uppfærsla þann 31/05/2018

Efst á síðu